Bandalag íslenskra bílablaðamanna, BÍBB, tilkynnti í Ásmundarsafni í dag hvaða bíll hefði orðið fyrir valinu sem Bíll ársins 2008 á Íslandi. Kristján Möller samgönguráðherra afhenti fulltrúum B&L Stálstýrið sem fylgir nafnbótinni sem að þessu sinni féll í skaut nýs Land Rover Freelander.
Sigur Land Rover Freelander var nokkuð afgerandi. Hann hlaut alls 200 stig af 225 mögulegum en næst hæstur að stigum varð Skoda Roomster, sem hlaut 185 stig, og varð þar með Bíll ársins 2008 í flokki smábíla.
Í umsögn dómnefndar segir m.a.: “Freelander er nýtt afbrigði, hálfjeppi, með mikinn búnað og góðan frágang. Veitti mesta öryggiskennd í sínum flokki á möl enda með mesta búnaðinn...” “Fjöðrun og bremsukerfi í sérflokki af þeim sem við prófuðum. Hár lúxusstaðall og hagkvæmur í rekstri...”
Skoda Roomster sigraði nokkuð örugglega í flokki smábíla með 185 stig. Í flokki millistærðarbíla stóð Subaru Impreza uppi sem sigurvegari með 184 stig, í flokki stórra bíla og lúxusbíla var það Mercedes-Benz C-lína með 177 stig og í flokki jeppa, jepplinga og pallbíla var það, sem fyrr segir Bíll ársins 2008, Land Rover Freelander.
Í dómnefnd BÍBB eru níu reyndir bílablaðamenn. Einkunnir voru gefnar út frá fimm þáttum, þ.e. hönnun, aksturseiginleikum, rými, öryggi og verði.