Borgarráð hélt 5.000 fund sinn í gær og í tilefni tímamótanna fór hann fram í Höfða. Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, segir að hefðbundnar umræður hafi farið fram á fundinum sjálfum og í móttökunni á eftir hafi ýmsar skemmtilegar tengingar komið í ljós. Í því sambandi nefnir hann að Hermann Jónasson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi setið fyrsta fund bæjarráðs 6. ágúst 1932 og barnabarn hans, Guðmundur Steingrímsson, hafi verið á fundinum í gær sem aðstoðarmaður Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra.
Stefán Jóhann Stefánsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi líka verið í fyrsta bæjarráðinu en alnafni hans sé varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar og þeir séu tengdir.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, var einn af gestunum í Höfða en langafi hans, Matthías Einarsson læknir, og dóttir hans Louisa Matthíasdóttir bjuggu lengi í Höfða.
Björn Ingi segir að það hafi verið skemmtileg tilbreyting að halda borgaráðsfund í Höfða og vel komi til greina að endurtaka leikinn við gott tækifæri.
Á fundi bæjarstjórnar 4. ágúst 1932 var kosið í bæjarráð í fyrsta sinni og voru kosnir Guðmundur Ásbjörnsson, Hermann Jónasson, Jakob Möller, Pétur Halldórsson og Stefán Jóh. Stefánsson. Fyrsti formaður ráðsins var Knud Zimsen borgarstjóri. Fyrsti fundur bæjarráðs var haldinn laugardaginn 6. ágúst 1932 og sátu þann fund kjörnir aðalfulltrúar, nema Pétur Halldórsson og Stefán Jóh. Stefánsson. Í þeirra stað mættu Hjalti Jónsson og Ágúst Jósefsson.
Nokkrir borgarráðsfulltrúar hafa setið fleiri en 1000 fundi og þar á meðal eru Guðmundur Vigfússon, Kristján Benediktsson, Geir Hallgrímsson, Auður Auðuns, Birgir Ísleifur Gunnarsson, Sigurjón Pétursson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Undanfarin ár hefur málafjöldi í borgarráði verið um 1200 á ári en var nokkuð hærri á árum áður. Breytt vinnulag og embættisafgreiðslur hafa dregið nokkuð úr fjölda mála.