Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur ákveðið að skipa Sigurgeir Þorgeirsson í embætti ráðuneytisstjóra í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu frá og með 1. janúar 2008.
Sigurgeir lauk doktorsprófi frá Edinborgarháskóla árið 1981 og BSc prófi frá sama skóla 1976. Hann er framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands og hefur gegnt því starfi undanfarin tólf ár. Sigurgeir var aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra frá 1991-1995. Áður var hann sérfræðingur hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins um fimmtán ára skeið, þar af fyrstu fimm árin í hlutastarfi með námi. Einnig var Sigurgeir sauðfjárræktarráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands í hlutastarfi frá 1985-1991.
Sigurgeir er fæddur 1952, kvæntur og á tvær uppkomnar dætur.