Stjórnvöld á Íslandi og Ítalíu hafa ákveðið að setja á stofn starfshóp til að kanna með hvaða hætti er hægt að auka viðskipti og efnahagstengsl landanna. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, skýrði frá þessu á fundi Ítalsk-íslenska viðskiptaráðsins í Róm í dag, þar sem Emma Bonino, utanríkisviðskiptaráðherra Ítalíu, var m.a. viðstödd. Um 1% af útflutningi Íslands fer til Ítalíu en 3,6% af innflutningi Íslands eru ítalskar vörur.
Geir sagði að ýmis jákvæð merki væru um að þessi viðskipti væru að aukast og nefndi m.a. umsvif fyrirtækja á borð við Landsbankann, Actavis og Promens á Ítalíu. Lengi vel hefðu engin ítölsk fyrirtæki fjárfest á Íslandi en í sumar hefði verið gerður samningur við álfélagið Becromal um álþynnuverksmiðju.
Geir sagðist hafa á fundi með Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu í dag, nefnt að mikilvægt væri að ítalska þingið fullgilti tvísköttunarsamning milli ríkjanna og einnig rætt möguleika á stofnun ítalsks sendiráðs í Reykjavík.
Geir sagði einnig, að það væri margsannað, að menningarsamskipti ríkja örvuðu efnahagssamvinnu. Tilkynnti Geir að íslenska ríkið ætlaði að standa straum af íslenskukennslu í La Sapienza háskólanum í Róm og lét þess einnig getið, að ítölsk stjórnvöld hefðu lengi styrkt ítölskukennslu á Íslandi. Þá veitti Geir Silviu Cosimini fjárstyrk, en hún hefur þýtt fjölda íslenskra bókmenntaverka á ítölsku.
Ræða Geirs á fundi Ítals-íslenska verslunarráðsins