Keyptu heila götu í Garðabæ

Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) hafa keypt heila götu í Garðabæ, Mosagötu, og ætla að byggja þar 77 íbúðir.

Um er að ræða allar íbúðarlóðir við götuna sem liggur miðsvæðis í Urriðaholti. Búið er að skipuleggja byggð við götuna og verða þar byggð lítil og lágreist fjölbýlishús og raðhús með alls 77 íbúðum. ÍAV ætla að hefja framkvæmdir eftir mitt næsta ár og er gert ráð fyrir að fyrstu íbúar flytji inn í húsin eftir um tvö ár.

Urriðaholt ehf. hefur skipulagt rúmlega 4 þúsund manna byggð í hverfinu öllu og seldi lóðirnar til ÍAV. Samningsaðilar vilja ekki gefa upp kaupverð lóðanna.

Gunnar Sverrisson, forstjóri ÍAV, segist vera hrifinn af skipulagi svæðisins, þar sé lögð áhersla á nálægð við náttúruna, skóla og golfvöll. „Svo eru fjölbýlishúsin lítil og hugguleg með fáum íbúðum. Við höfum byggt mikið af svona smærri fjölbýlishúsum og við höfum fundið fyrir vaxandi eftirspurn eftir svoleiðis húsum, sérstaklega frá fjölskyldufólki.“

Með því að kaupa lóðir á heilli götu segir Gunnar að ÍAV nái stærðarhagkvæmni í framkvæmdinni, til hagsbóta fyrir alla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert