Fjöldi óhappa í nótt vegna ölvunar og hálku

mbl.is/Júlíus

Mikið var um umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæðinu í nótt, en mikil hálka var Reykjavík í nótt. Tólf árekstrar og óhöpp hafa orðið frá því á miðnætti en þar af eru fimm grunaðir um ölvun eða lyfjaakstur. Engin alvarleg slys hafa orðið á mönnum, en lögregla segir um mikið eignatjón að ræða.

Sá sem grunaður er um akstur undir áhrifum fíkniefna ók um þrjúleytið á umferðarljós á Grensásvegi, hann hélt svo áfram ferðinni á mikið skemmdum bílnum á öfugum vegarhelmingi og ók á strætóskýli. Maðurinn var fluttur á slysadeild, en þar lét hann öllum illum látum að sögn lögreglu og veittist að sjúkraflutningamönnum. Hann var svo fluttur á lögreglustöð þar sem hann er enn, og verður hann yfirheyrður síðar í dag.

Þá ók einn á stjórnkassa fyrir umferðarljós á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, sá hljóp á brott en náðist á hlaupum við Kringluna. Hann varðist handtöku en náðist og er nú í haldi lögreglu og verður yfirheyrður í dag.

Enn einn ölvaður ökumaður sem stolið hafði nýjum bíl frá bílaumboði hafði litla stjórn á bílnum í hálkunni og ók utan í bíla þar sem hann var að reyna bílinn í hálkunni við Höfðabakka í nótt, hann varð sér líkt og aðrir ölvaðir ökumenn í nótt úti um ókeypis gistingu.

Nokkur erill var í miðbænum í nótt vegna ölvunar og tilkynnt um nokkrar líkamsárásir þar sem m.a. dyraverðir urðu fyrir barðinu á ölvuðum öldurhúsagestum. Þá voru fjórtán handteknir fyrir brot á lögreglusamþykkt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka