RNF: Hálka stærsti þátturinn í því að flugvélin rann út af braut

Flugvélin var enn við flugbrautina í morgun.
Flugvélin var enn við flugbrautina í morgun. vf.is/Ellert

Bragi Bald­urs­son, sem stjórn­ar rann­sókn Rann­sókn­ar­nefnd­ar flug­slysa á at­vik­inu í nótt þar sem flug­vél rann út af flug­braut á Kefla­vík­ur­flug­velli, seg­ir að svo virðist sem hálka hafi orðið til þess flug­vél­in fór út af braut­inni. Að sögn eins farþega vél­ar­inn­ar var lend­ing­in afar harka­leg og leið rúm­ur klukku­tími frá því að at­vikið varð og þar til farþegar fengu að fara út úr vél­inni.

188 ís­lensk­ir farþegar og 10 manna áhöfn voru í flug­vél­inni, sem var að koma frá An­ta­lya í Tyrklandi.

Bragi seg­ir að sam­kvæmt því sem komið sé fram hafi vél­in, sem er af gerðinni Boeing 737-800 frá flug­fé­lag­inu Jetx sem flýg­ur fyr­ir Astra­eus, lent á flug­braut 02 og verið að beygja út af braut­inni inn á ak­braut Nóv­em­ber-4 þegar at­vikið varð, seg­ir Birg­ir að þarna hafi verið til­tölu­lega hált, og ekki jafn góð bremsu­mæl­ing og við enda braut­ar­inn­ar. Vél­in náði ekki beygj­unni og rann út í möl þar sem nef­hjól henn­ar grófst niður og af­felgaðist.

Að sögn Birg­is var um að ræða skil­yrði sem mynd­ast þegar hiti er við frost­mark og eru aðstæður þá afar fljót­ar að breyt­ast. Glímt hef­ur verið við hálku í morg­un og hafa starfs­menn vart haft við að hreinsa og af­ísa braut­ina. Tvær vél­ar á leið frá Banda­ríkj­un­um lentu á Eg­ils­stöðum í morg­un þar sem ekki var óhætt að lenda í Kefla­vík og hring­sóluðu tvær til viðbót­ar yfir vell­in­um um stund meðan unnið var að því að hreinsa braut­ina.

Jón Birg­ir Pét­urs­son, blaðamaður, var einn farþega í vél­inni og seg­ir hann at­vikið hafa verið afar óþægi­legt, en ekki aðeins vegna þess að vél­in fór út af braut­inni. Jón Birg­ir seg­ir að lend­ing­in hafi verið sú harka­leg­asta sem hann og aðrir farþegar í vél­inni hafi upp­lifað, vél­in hafi komið mjög skart inn til lend­ing­ar og kast­ast til á braut­inni og aft­ur upp í loft, lík­lega um 15 metra. Allt hafi þetta gerst mjög hratt, vél­in hafi svo beygt út af braut­inni, runnið í hálk­unni og hafnað utan braut­ar­inn­ar. Flug­stjór­inn út­skýrði svo fyr­ir farþegum að hann hefði lent í óvæntri hálku.

Þá seg­ir Jón Birg­ir að eng­in áfalla­hjálp hafi verið í boði fyr­ir farþega svo hann viti og að rúm­ur klukku­tími hafi liðið frá því að at­vikið varð og þar til farþegar fengu að fara út úr vél­inni. Jón seg­ist tvisvar áður hafa lent í svipuðum at­vik­um á ferðum sín­um, og að þá hafi verið for­gangs­atriði að ná fólki út úr vél­un­um, farþegar hafi verið orðnir þreytt­ir og óánægðir.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert