Bragi Baldursson, sem stjórnar rannsókn Rannsóknarnefndar flugslysa á atvikinu í nótt þar sem flugvél rann út af flugbraut á Keflavíkurflugvelli, segir að svo virðist sem hálka hafi orðið til þess flugvélin fór út af brautinni. Að sögn eins farþega vélarinnar var lendingin afar harkaleg og leið rúmur klukkutími frá því að atvikið varð og þar til farþegar fengu að fara út úr vélinni.
188 íslenskir farþegar og 10 manna áhöfn voru í flugvélinni, sem var að koma frá Antalya í Tyrklandi.
Bragi segir að samkvæmt því sem komið sé fram hafi vélin, sem er af gerðinni Boeing 737-800 frá flugfélaginu Jetx sem flýgur fyrir Astraeus, lent á flugbraut 02 og verið að beygja út af brautinni inn á akbraut Nóvember-4 þegar atvikið varð, segir Birgir að þarna hafi verið tiltölulega hált, og ekki jafn góð bremsumæling og við enda brautarinnar. Vélin náði ekki beygjunni og rann út í möl þar sem nefhjól hennar grófst niður og affelgaðist.
Að sögn Birgis var um að ræða skilyrði sem myndast þegar hiti er við frostmark og eru aðstæður þá afar fljótar að breytast. Glímt hefur verið við hálku í morgun og hafa starfsmenn vart haft við að hreinsa og afísa brautina. Tvær vélar á leið frá Bandaríkjunum lentu á Egilsstöðum í morgun þar sem ekki var óhætt að lenda í Keflavík og hringsóluðu tvær til viðbótar yfir vellinum um stund meðan unnið var að því að hreinsa brautina.
Jón Birgir Pétursson, blaðamaður, var einn farþega í vélinni og segir hann atvikið hafa verið afar óþægilegt, en ekki aðeins vegna þess að vélin fór út af brautinni. Jón Birgir segir að lendingin hafi verið sú harkalegasta sem hann og aðrir farþegar í vélinni hafi upplifað, vélin hafi komið mjög skart inn til lendingar og kastast til á brautinni og aftur upp í loft, líklega um 15 metra. Allt hafi þetta gerst mjög hratt, vélin hafi svo beygt út af brautinni, runnið í hálkunni og hafnað utan brautarinnar. Flugstjórinn útskýrði svo fyrir farþegum að hann hefði lent í óvæntri hálku.
Þá segir Jón Birgir að engin áfallahjálp hafi verið í boði fyrir farþega svo hann viti og að rúmur klukkutími hafi liðið frá því að atvikið varð og þar til farþegar fengu að fara út úr vélinni. Jón segist tvisvar áður hafa lent í svipuðum atvikum á ferðum sínum, og að þá hafi verið forgangsatriði að ná fólki út úr vélunum, farþegar hafi verið orðnir þreyttir og óánægðir.