30 brutu gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar um helgina

Lögreglan að störfum í miðborginni
Lögreglan að störfum í miðborginni mbl.is/Júlíus

Þrjátíu einstaklingar brutu gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar um helgina. Sextán gerðust sekir um þetta athæfi aðfaranótt laugardags og fjórtán aðfaranótt sunnudags. Þetta voru tuttugu og níu karlar og ein kona, 26 ára. Karlarnir eru langflestir á þrítugsaldri, eða 21, og fjórir eru undir tvítugu. Elsti karlinn er hins vegar kominn vel á sextugsaldur.

Hinir brotlegu höfðu í frammi ýmiskonar ólæti og óspektir en þeim var boðið að ljúka málinu með sektargreiðslu. Margir tóku þann kostinn en meðal þess sem fólkið gerði af sér var að kasta af sér þvagi á almannafæri, fleygja rusli, trufla umferð og kasta grjóti. Þá var einn tekinn fyrir að torvelda störf lögreglumanna en sá sagðist ekki láta af þessari iðju nema að hann yrði handtekinn og fór svo að honum varð að ósk sinni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka