Fuglaáhugamenn hafa aldrei séð annað eins af barrfinku hér á landi og síðustu daga. Barrfinka er frekar sjaldgæfur fugl og árið 2002 höfðu aðeins 209 slíkir fuglar sést hér á landi svo staðfest væri. Á síðustu dögum hafa sést vel á fimmta hundrað barrfinkur og Brynjúlfur Brynjólfsson, hjá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands á Höfn í Hornafirði, telur líklegt að það séu yfir þúsund barrfinkur á landinu.
"Það hefur farið af stað ganga vestur um Evrópu því að mikið af barrfinkum hefur fundist á skosku eyjunum og hér á landi. Það er áætlað að um 150 barrfinkur hafi verið í Múlakoti í gær."
Brynjúlfur telur að ástæðan fyrir því að barrfinkur hafi leitað til Íslands sé fæðuskortur. Hann telur ágætar líkur á að fuglarnir geti lifað af veturinn. Þeir éti fræ sem nóg sé af hér á landi. "Við trúum því að næsta vor verði talsvert mikið varp hjá barrfinkum. Þær hafa orpið hér áður, t.d. á Tumastöðum sl. 3-4 ár."