Fangavélar á ferð í sumar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir að flugvélar með flugnúmer sem grunur leikur á að hafi verið notaðar undir fangaflug hafi lent hér á landi síðast í júlí í sumar. Hún segir ástæðu til að skoða hvort ástæða sé til að nýta valdheimildir til að leita í þessum vélum til að íslensk stjórnvöld geti fullvissað sig um að ekki sé verið að flytja með þeim fanga. Utanríkisráðherra setti á laggirnar starfshóp í lok júní eftir að skýrsla var birt í þingi Evrópuráðsins um fangaflug. "Hópnum var falið að skoða hvort loftför sem grunur leikur á að hafi m.a. verið notuð undir meint ólögmætt fangaflug hafi lent á Keflavíkurflugvelli eða Reykjavíkurflugvelli. Niðurstaða starfshópsins er að þessar flugvélar hafi haft viðkomu á þessum flugvöllum og farið um íslenska lofthelgi á því tímabili sem könnunin nær til sem er frá september 2001 til loka júlí 2007. Hins vegar er varla mögulegt eftir á að sannreyna hvort einhver ólögmætur flutningur fanga hafi átt sér stað í þessum tilvikum eða ekki því að auðvitað hafa þessar flugvélar verið notaðar við margt annað."

Ingibjörg Sólrún sagðist vilja skoða hvort ástæða væri til að herða eftirlit með þessum tilteknu flugnúmerum og hvort toll- og löggæsluyfirvöld gætu í framhaldinu nýtt sínar valdheimildir til að fara um borð í þessar flugvélar þegar þær koma til Íslands.

Alvarlegur glæpur

"Það er staðfastur vilji okkar að standa við skuldbindingar á sviði mannréttinda. Það er mjög alvarlegt ef flutningur hefur verið á föngum til pyntinga um íslensk lofthelgi því það samræmist ekki alþjóðalögum og skuldbindingum Íslands. Pyntingar eru mjög alvarlegur glæpur og eru skilyrðislaust bannaðar samkvæmt alþjóðalögum," sagði Ingibjörg Sólrún.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert