Göng um Óshlíð í útboð

Kristján Möller segir að Bolungarvíkurgöng, sem koma í stað vegar um Óshlíð, fari í útboð á næstu dögum og framkvæmdir ættu að geta hafist á fyrstu mánuðum næsta árs. Stefnt er að því að göngin verði tekin í notkun árið 2010. Forvali vegna jarðganga milli Hnífsdals og Bolungarvíkur lauk í ágúst og lýstu fimm áhuga á að taka þátt í útboði.

Í sumar og haust hafa staðið yfir tilraunaboranir vegna Norðfjarðarganga sem liggja á milli Neskaupstaðar og Eskifjarðar. Kristján vonast eftir að hægt verði að byrja á göngunum árið 2009.

Vinna við Héðinsfjarðargöng stendur nú sem hæst og segist Kristján vonast eftir að göngin verði tekin í notkun í desember 2009 ef allar áætlanir standist. Hann segir að einnig sé unnið að undirbúningi Vaðlaheiðarganga. Þau göng séu í samgönguáætlun en hugsanlega fara göngin í einkaframkvæmd. Kristján segir að göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar séu einnig í undirbúningi en í samgönguáætlun er gert ráð fyrir að útboðsferli geti hafist 2009 í framhaldi af verklokum við Bolungarvíkurgöng.

Kristján sagði að þó að þarna væri verið að undirbúa fjárfrekar framkvæmdir á landsbyggðinni yrði einnig miklum fjármunum varið til samgöngubóta á höfuðborgarsvæðinu. Stærsta framkvæmdin væri Sundabraut, en rætt hefur verið um að hún verði hugsanlega sett í jarðgöng. Von er á skýrslu um kostnað við slík göng og benda nýjustu rannsóknir til að kostnaður sé umtalsvert hærri en áður var reiknað með. Kristján sagðist ekki vera búinn að fá skýrslu um þetta mál í hendur og gæti því ekki tjáð sig um hvaða áhrif þetta hefði. Hann myndi fara yfir þetta mál með Vegagerðinni og borgaryfirvöldum þegar skýrslan lægi fyrir.

Í hnotskurn
» Bolungarvíkurgöng verða 5,1 km löng jarðgöng, auk 310 metra langra steinsteyptra vegskála. Göngin kalla á um 3 km langa vegi og byggingu tveggja um 15 m langra steinsteyptra brúa.
» Norðfjarðargöng koma í stað vegar um Oddsskarð. Í ár var unnið að tilraunaborunum á svæðinu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert