Hibernia Atlantic, félag sem á og rekur net sæstrengja beggja vegna Atlantshafsins, ætlar að höfða mál fyrir EFTA-dómstólnum á hendur íslenska ríkinu í kjölfar þess að ákvörðun var tekin um það á ríkisstjórnarfundi að Farice, sem á og rekur Farice-sæstrenginn, myndi leggja svokallaðan Danice-streng frá Íslandi til Danmerkur.
Bjarni Þorvarðarson, forstjóri Hibernia, segir að það hvernig að málinu var staðið stríði gegn ákvæðum EES-samningsins um ríkisstyrki og að lagning strengsins hefði átt að vera boðin út.
Þá segir Bjarni að ákvörðun um lagningu Danice illskiljanlega í ljósi þess að Hibernia og Farice höfðu fyrr í þessum mánuði náð samkomulagi um að Hibernia fjármagnaði, legði og ræki streng milli Íslands og Írlands og að Farice fengi mjög hagstæðan aðgang að þeim streng.
Bjarni segir að Hibernia hafi allt frá árinu 2005 sýnt áhuga á að leggja nýjan sæstreng frá Íslandi og að fyrirtækið hafi verið í viðræðum við Farice um langt skeið. Hins vegar hafi gengið erfiðlega að ná tali af einhverjum hjá samgönguráðuneytinu um málið, einkum eftir að Hibernia kynnti áform um að leggja strenginn á eigin reikning.
"Hinn 10. ágúst sendi ég erindi til samgönguráðuneytisins, þar sem ég óskaði eftir fundi með ráðherra til að ræða fyrirhugaða Hibernia-sæstrengi til Írlands og leyfismál. Aldrei var orðið við þessari beiðni um fund með ráðherra og í samskiptum við starfsfólk ráðuneytisins hafa okkur þrátt fyrir ítrekanir aldrei borist svör um hvaða leyfi Hibernia þurfi til að leggja sæstreng til Íslands." Segir Bjarni það engu líkara en Hibernia og áform fyrirtækisins hafi verið sniðgengin.