„Morgunninn byrjaði næstum því með slagsmálum“

Það er óhætt að segja að það hafi verið hamagangur á dekkjaverkstæði N1s í morgun en þegar verkstæðið opnaði kl. átta var þegar farin að myndast biðröð. Er fréttamenn bar að garði upp úr kl. 10 var komin þriggja tíma röð að sögn sölustjóra dekkjaverkstæðisins. Hann segist jafnframt hafa þurft að stilla til friðar í morgun en það lá við handalögmálum er viðskiptavinir verkstæðisins fóru að rífast um það hver væri fyrstur.

Ásgrímur Reisenhus, sölustjóri N1s á Réttarhálsi, segir ástandið vera það sama ár eftir ár. Íslendingar vilji allir skipta um dekk þegar snjórinn komi.

Hann segir aðspurður að þeim fari fækkandi sem aka á nöglum innanbæjar. Öðru máli gegni með þá sem séu mikið á ferðinni úti á landi og bregða þeir ekki út af vananum og láta setja nagladekk undir hjá sér.

Sem fyrr segir hefur myndast löng röð fyrir framan dekkjaverkstæðið og segir Ásgrímur að lögreglan hafi komið og gert athugasemdir vegna hennar. Hann segir það vissulega rétt að þetta skapi hættu, en hann bendir á að þetta sé engin nýlunda. Menn stefni hinsvegar að því að leysa málið hratt og örugglega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert