Ólafur Jóhannesson: „Ég ræð“

Nýr landsliðsþjálfari íslenska A-landsliðsins í knattspyrnu var kynntur til leiks í dag, en hann tekur við af Eyjólfi Sverrissyni. Formaður Knattspyrnusamband Íslands segir sambandið hafa miklar væntingar til nýja þjálfarans og að vonast sé til þess að hann muni ná að rétta af gengi liðsins.

Ólafur Jóhannesson segist vera þakklátur fyrir það traust sem KSÍ sýni honum með ráðningunni. Þá segir hann að það megi eflaust vænta breytinga við þjálfaraskiptin og að áhersla verði lögð á að efla varnarleik liðsins.

Aðspurður muninn á því að þjálfa íslenskt félagslið og íslenska landsliðið segir Ólafur þá breytingu vera helsta að nú hafi allir skoðun á því sem hann sé að gera, en þegar öllu sé á botninn hvolft þá sé það hann sem ráði.

Ekki hefur verið gengið frá því hver verður aðstoðarmaður Ólafs með landsliðið eða hvort hann hafi aðstoðarmann við hlið sér.

Fyrsti landsleikur Íslands undir stjórn Ólafs verður við Dani á Parken í Kaupmannahöfn miðvikudaginn 21. nóvember nk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert