Mál Svandísar Svavarsdóttur, borgarfulltrúa, gegn Orkuveitu Reykjavíkur var tekið fyrir í Héraðsdómir Reykjavíkur í morgun. Lögð var fram frávísunarkrafa af hálfu OR og verður sú krafa tekin fyrir í dómnum næstkomandi mánudag.
Einnig voru lagðar fram í dómnum fundargerð stjórnar- og eigendafundar Orkuveitu Reykjavíkur frá 3. október og tölvuskeyti frá 8. október.
Svandís vill með málinu fá skorið úr um lögmæti eigendafundar Orkuveitu Reykjavíkur. Telur Svandís fundinn hafa verið ólögmætan þar sem til hans var boðað með innan við sólarhrings fyrirvara og þess vegna beri að ógilda allar ákvarðanir fundarins. Samkvæmt sameignarsamningi OR á að boða fundi með viku fyrirvara. Á umræddum fundi var samruni Reykjavik Energy Invest, dótturfélags OR, og Geysis Green Energy, samþykktur.
Fram kemur einnig í stefnu að sérstök lög hafi verið sett um OR árið 2001 og þar sé í 11. grein mælt fyrir um að eigendur þess fyrirtækis skuli gera með sér sameignarsamning, þar sem fram komi frekari ákvæði um fyrirtækið en beint séu tiltekin í lögum. Sameignarsamningurinn hafi verið staðfestur af aðilum í framhaldi af þessari lagasetningu. "Telur stefnandi því ljóst að þeir sem á hverjum tíma fara með atkvæði eigenda í fyrirtækinu hafi ekki frjálsar hendur um að víkja einstökum ákvæðum samningsins til hliðar eftir því sem þeim þykir henta.