Flugstjóri þotunnar sem lenti í vandræðum aðfararnótt sunnudags á Keflavíkurflugvelli beitti harðri lendingu vegna upplýsinga sem hann hafði fengið um aðstæður á flugbrautinni. Er það í samræmi við leiðbeiningar frá framleiðanda flugvélarinnar og í samræmi við hönnun flugvélarinnar og er ætlað að auka bremsuhæfni við aðstæður sem þessar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá JetX, eiganda flugvélarinnar.
Segir í tilkynningunni að flug félagsins frá Antalya til Keflavíkur var með eðlilegum hætti, en millilenda þurfti í Edinborg til eldsneytistöku vegna mótvinda í lofti.
Millilendingin gekk hratt og eðlilega fyrir sig og olli einungis lágmarkstöf og á engum tímapunkti flugsins var um vélarbilun að ræða. Í aðflugi að Keflavík fékk áhöfnin upplýsingar frá flugturni þar sem fram kom að bremsuskilyrði og veður fyrir flugbraut 02 væru góð með ís á stöku stað eins og fram kemur í fréttatilkynningu Rannsóknarnefndar flugslysa, samkvæmt tilkynningu frá JetX.
„Með tilliti til þessara aðstæðna og í samræmi við almennar verklagsreglur í flugi valdi flugstjórinn að beita harðri lendingu. Sú ráðstöfun er samkvæmt leiðbeiningum frá framleiðanda, í samræmi við hönnun flugvélarinnar og er ætlað að auka bremsuhæfni við aðstæður sem þessar.
Lending vélarinnar var með eðlilegum hætti en við lok lendingarbruns varð áhöfninni ljóst að bremsuskilyrði voru algerlega ófullnægjandi og önnur en samkvæmt upplýsingum frá flugturni. Skilyrði voru með þeim hætti að klakabrynja huldi aksturssvæðið og við þessar aðstæður reyndist erfitt að hafa eðlilega stjórn á hraða vélarinnar.
Aðstæðurnar höfðu veruleg áhrif á stjórngetu flugvélarinnar en áhöfnin beitti þó öllum tiltækum ráðum til þess að hafa stjórn á stefnu hennar. Þegar flugstjórinn beygði vélinni út af flugbraut 02 og yfir á akbraut N-4, skreið vélin til vegna hálku og lenti eitt aðalhjóla og nefhjól utan akbrautar.
Við slíkar aðstæður er forgangsatriði áhafnar að tryggja öryggi flugvélar og farþega sem felst m.a. í því að slökkva á hreyflum vélarinnar, yfirfara gátlista með öryggisatriðum og kalla eftir viðeigandi aðstoð.
Strax og unnt var upplýstu flugstjóri, yfirflugfreyja og þjónustufulltrúi um borð, farþega um gang mála. Þær upplýsingar voru uppfærðar með reglulegum hætti meðan beðið var eftir flutningi í flugstöð og var aðhlynning í samræmi við aðstæður og verklagsreglur. Strax var ljóst að flytja þurfti farþega úr vélinni með rútum að flugstöð, en gríðarleg hálka hamlaði framvindu og áttu þjónustuaðilar erfitt með að komast að og athafna sig við vélina. Því miður reyndist einungis unnt að fá eina rútu til verksins sem tók því lengri tíma en ella þar sem þrjár ferðir þurfti til.
Í kjölfarið þessa atviks var öðrum flugvélum í aðflugi að Keflavíkurflugvelli beint frá og lentu tvær flugvélar Icelandair á flugvellinum á Egilsstöðum. Fyrstu rannsóknir gefa eindregið til kynna að ísing á aksturssvæði sé orsök atviksins.
JetX harmar þau óþægindi sem farþegar urðu fyrir og þakkar fyrir biðlund og skilning farþega á þessu leiða atviki. Jafnframt vill félagið þakka öllum aðilum á flugvellinum fyrir veitta aðstoð við erfið skilyrði," að því er segir í tilkynningu frá JetX.