Hafrannsóknastofnun segir, að við stofnmælingu rækju á grunnslóð, sem nú er lokið, séu jafnframt stundaðar almennar fiskirannsóknir. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum um fjölda þorskseiða virðist 2007 árgangur þorsks slakur og svipaður og árin 2004 til 2006. Fyrstu merki um 2007 árgang ýsu bendi hins vegar til að sá árgangur sé talsvert yfir meðaltali á grunnslóð.
Minna var af eins árs þorski og eldri á öllum svæðum en verið hefur síðustu vetur. Hins vegar var mikið af ýsu eins árs og eldri, einkum fjögurra ára ýsu en sá árgangur hefur verið áberandi inni á öllum fjörðunum í fjögur ár á meðan þorskurinn virðist ekki eins staðbundinn.
Vegna of lítils rækjumagns og fjölda ungfisks, aðallega ýsu, í flestum fjörðum voru hvergi lagðar til rækjuveiðar. Hafrannsóknastofnun segir, að dálítill bati virðist vera á rækjustofninum í Ísafjarðardjúpi og einnig virðist rækjustofninn í Arnarfirði hafa náð sér aðeins á strik. Þá virtist nýliðun rækju góð í Ísafjarðardjúpi, Skjálfanda og Öxarfirði.