17 teknir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Akranesi

17 ökumenn voru staðnir að því að aka of hratt í síðustu viku í umdæmi lögreglunnar á Akranesi. Átta þeirra voru teknir þar sem hámarkshraði er 90 km/klst og var hraði þeirra frá 105 – 117 km/klst. Þá voru sjö mældir á 50-60 km/klst hraða þar sem hámarkshraði er 30 km/klst en öflugt eftirlit hefur verið með hraðakstri við grunnskóla bæjarins þar sem hámarkshraði er 30.

Einn tekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna auk þess sem tæplega fimm grömm af kannabisefnum fundust á farþega sem var með honum í bifreiðinni.

Veitt var aðstoð vegna sex umferðaróhappa í vikunni en engin slys urðu á fólki. Þar á meðal var harður árekstur milli tveggja bifreiða á gatnamótum Dalbrautar og Esjubrautar þar sem draga þurfti báðar bifreiðarnar af vettvangi.

Lögreglumenn þurftu að koma tveimur útlendingum til aðstoðar á sunnudaginn. Þeir höfðu verið á ferð um Dragháls á lítilli bílaleigubifreið og bifreiðin farið út af veginum. Mikil hálka var á þessum tíma og bifreiðin á sumardekkjum auk þess sem ökumaðurinn óvanur akstri í hálku. Bifreiðin fór út af veginum í snarbrattri brekku og stöðvaðist sem betur fer við það að leggjast á kviðinn á vegkantinum, samkvæmt dagbók lögreglunnar á Akranesi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert