Efast um hæfni heilbrigðisráðherrans til að gegna embætti

Frumvarp um að afnema einkarétt ÁTVR af sölu léttvína og …
Frumvarp um að afnema einkarétt ÁTVR af sölu léttvína og bjórs var til umræðu utan dagskrár á Alþingi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Björn Valur Gíslason, varaþingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði í upphafi þingfundar í dag, að Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefði með yfirlýsingu um að hann styddi „brennivínsfrumvarpið" ráðist af hörku gegn þeim stofnunum og samtökum, sem varað hefðu við frumvarpinu.

Sagði Björn Valur, að ráðherrann hefði með þessu sýnt af sér slíkan dómgreindarbrest, að rétt væri að efast um hæfi hans til að gegna jafn mikilvægu embætti og heilbrigðisráðherraembættinu.

Guðlaugur Þór sagði að enginn fótur væri fyrir því, að hann hefði ráðist af hörku gegn þeim sem tjáð hefðu sig um frumvarpið. Sagðist Guðlaugur Þór hafa hvað eftir annað talað um þetta mál og hvatti hann Björn Val til að kynna sér frumvarpið og fjalla málefnalega um það. Frumvarpið gengi út á að afnema einokunarsölu ríkisins á áfengi og við það yrði m.a. til tæki fyrir sveitarfélög að stýra aðgengi að áfengissölu og öðru slíku.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrsti flutningsmaður umrædds frumvarps, minnti á að Guðlaugur Þór hefði á undanförnum fjórum þingum flutt frumvarpið og ekki skipt um skoðun þótt hann tæki við ráðherraembætti. Minnti Sigurður Kári á, að frumvarpið væri í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins, eins og hún hefði verið mörkuð á landsfundi flokksins í vor.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert