Fámennt á þingfundi vegna Norðurlandaráðsþings

Aðeins eru þingmannafrumvörp á dagskrá Alþingis í dag.
Aðeins eru þingmannafrumvörp á dagskrá Alþingis í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

Þingfundir hófust að nýju á Alþingi í dag eftir tveggja vikna hlé vegna nefndarfunda og kjördæmadaga. Aðeins þingmannafrumvörp eru á dagskrá í dag enda aðeins fjórir ráðherrar á landinu; hinir átta sækja þing Norðurlandaráðs í Ósló, sem hefst í dag. Margir þingmenn sækja einnig Norðurlandaráðsþingið, þar á meðal Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis.

Þeir Guðlaugur Þór Þórðarson og Björn Bjarnason eru einu ráðherrar Sjálfstæðisflokks á landinu í dag og Jóhanna Sigurðardóttir og Kristján L. Möller halda uppi merkjum Samfylkingarinnar. Guðlaugur, sem er m.a. starfandi forsætisráðherra í dag, heldur utan á morgun og þá tekur Björn við.

Ragnheiður Ásta Jóhannesdóttir, varaforseti Alþingis, minntist í upphafi þingfundar Kristínar S. Kvaran, fyrrverandi alþingismanns, sem er látin, 61 árs að aldri.

Fimm varamenn tóku sæti á Alþingi í dag: Dögg Pálsdóttir, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Guðný Helga Björnsdóttir og Róbert Marshall. Undirrituðu þau öll drengskaparheit að stjórnarskránni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert