Frumbyggjar Norðurlanda taki þátt í umhverfisumræðu

Egil Olli, forseti Samaþingsins, sagði við upphaf Norðurlandaráðsþingsins í Ósló í dag að mikilvægt sé að frumbyggjar Norðurlanda taki þátt í þeirri umhverfisumræðu sem nú eigi sér stað á svæðinu. Hann sagði hefðbundna þekking frumbyggja geti reynst gagnlega í tilraunum til að stemma stigu við loftslagsbreytingum og aðlögun að þeim umhverfisbreytingum sem óumflýjanlegar séu vegna þeirra.

Þá sagði hann frumbyggja víða um heim vera háðari náttúrunni en aðra hópa og því hafi afleiðingar loftslagsbreytinga ekki síst áhrif á þá. Einnig komi afleiðingarnar þeirra breytinga, sem nú séu að verða, fyrst fram í norðri og því komi það ekki á óvart að Norðurlandaþjóðirnar og þá sérstaklega frumbyggjar þeirra láti þessi mál sérstaklega til sín taka.

Grænlenski ráðherrann Aleqa Hammond tók í sama streng og sagði Grænlendinga sjá breytingar af völdum loftslagsbreytinga manna best í umhverfi sínu. Sagði hún umhverfisbreytingarnar á Grænlandi nú svo hraðar að íbúar landsins geti ekki með nokkru móti fylgt þeim eftir í aðlögun lífsmáta síns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert