Frumvarpi félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, til nýrra heildarlaga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla var í dag dreift á Alþingi. Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að eftirlitsheimildir Jafnréttisstofu með framkvæmd laganna verði efldar og gerðar skýrari. Þá er lagt til afnám samningsbundinnar skyldu til launaleyndar í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Lagt er til í frumvarpinu að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verði bindandi fyrir málsaðila í stað álitsgerða samkvæmt gildandi lögum auk ýmissa nýmæla varðandi málsmeðferð fyrir kærunefnd. Auk þess er lagt til að samhliða jafnréttisáætlunum sem fyrirtækjum með 25 eða fleiri starfsmenn er skylt að gera samkvæmt gildandi lögum, verði jafnframt gerð framkvæmdaáætlun þar sem fram kemur hvernig fyrirtæki hyggist framfylgja jafnréttisáætlun sinni.
Þá er tillaga í frumvarpinu um að jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna hafi sérþekkingu á jafnréttismálum þar sem ljóst þykir að styrkja þurfi stöðu þessara fulltrúa frá því sem nú er og að félagsmálaráðherra boði til sérstaks jafnréttisþings innan árs frá alþingiskosningum og aftur að tveimur árum liðnum í því skyni að hvetja til virkari umræðu um jafnréttismál meðal almennings á sem flestum sviðum samfélagsins.