Forsætisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna ræddu samskipti ríkjanna við Rússland, Georgíu og Úkraínu á kvöldverðarfundi sínum í gær. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að um óformlegar umræður hafi verið að ræða en að sérlega fróðlegt hafi verið að heyra viðhorf þessara manna til þeirrar þróunar sem sé að eiga sér stað í Rússlandi.
Geir sagði er hann ræddi við blaðamann mbl.is í dag að menn séu ekki beint áhyggjufullir vegna þróunarinnar í Rússlandi en að þeir séu þó meðvitaðir um að þar sé margt að gerast og breytast sem þarft sé að fylgjast með.
„Við ræddum bæði stöðu innanríkismála í Rússlandi og flug herflugvéla þeirra á Norðurslóðum. Eins og ég hef áður sagt höfum ekki áhyggjur af þessu flugi þeirra en þeir eru þó greinilega að senda okkur skilaboð með því sem okkur ber að taka alvarlega,” sagði hann. „Við verðum líka að hafa það í huga að staða Rússlands er að breytast mjög mikið. Þeir hafa hagnast á hækkun olíuverðs og verið að finna miklar gaslindir í jörðu þannig að bolmagn þeirra er mun meira nú en það var fyrir nokkrum árum síðan.