Þriðjungur starfsmanna álvers Alcoa Fjarðaáls eru konur. Það er met hjá Alcoa sem á 28 álver í fimm heimsálfum og jafnvel heimsmet líka. „Það er betra að vera á blönduðum vinnustað en á hreinum karla- eða kvennavinnustað," segir Fanney Jóna Gísladóttir vélvirki, sem flutti austur til að vinna í álverinu og hyggst starfa þar til framtíðar.
Alcoa hefur sagt upp fimm starfsmönnum, þremur konum og tveimur körlum, af þeim sem hingað til hafa verið ráðnir til álversins. Á fimmta hundrað starfsmenn hafa hins vegar skrifað undir samning og síðasta ráðningalotan stendur nú yfir. Ríflega helmingur allra starfsmanna álversins eru heimamenn, búsettir á Austurlandi, en fjörutíu og sex prósent þeirra sem nú koma til starfa í álverinu eru aðfluttir sem hafa fengið styrk til að flytja austur.