„Mmmm… Þetta er fjandi gott. Karamellan er með furðulega áferð, ólíka bandarískum karamellum," sagði bandaríski rithöfundurinn Steve Almond um íslenska sælgætið Þrist.
Vefsíðan Weeklydig.com birti á dögunum gagnrýni um íslenskt sælgæti, en Almond, sem skrifaði sælgætisbókina Candyfreak, var fenginn til liðs við blaðamann vefsíðunnar David Levin og smökkuðu þeir meðal annars Þrist, Rís og Ópal.
Sófus Gústavsson, verslunarstjóri Nammi.is, segir verslunina senda mikið af sælgæti til Bandaríkjanna. „Það fer mest þangað. Það er auðvitað margt fólk þar," segir hann. "Þetta eru bæði Íslendingar og Bandaríkjamenn sem panta. Ætli það skiptst ekki til helminga. Súkkulaði frá Nóa Síríusi er eiginlega í öllum sendingum," segir hann. „Bandaríkjamenn falla alveg kylliflatir fyrir rjómasúkkulaðinu og panta það í kassavís."