Í október hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haldið úti sérstöku eftirliti þar sem ástand og ljósbúnaður bifreiða hefur verið kannaður. Nú er sá árstími runninn upp þegar dagarnir eru stuttir og skyggni oft lélegt. Lögreglan hefur stoppað tugi ökutækja það sem af er þessum mánuði og gert aðfinnslur við ökumenn eða lagt fram kæru ef mörg ljós hafa ekki verið lagi.
Að sögn Guðbrands Sigurðssonar, aðalvarðstjóra umferðadeildar Lögreglu höfuðborgarsvæðisins, er ljóst að allt of margir ökumenn kanni ekki ástand ökutækja sinna áður en þeir leggja af stað út í umferðina. Og þegar í umferðina er komið séu of margir ökumenn óduglegir við að nota stefnuljós þegar breyta á um akstursstefnu líkt og lög gera ráð fyrir.
Guðbrandur bendir jafnframt að allt of margir séu óduglegir við að skafa almennilega af bifreiðum sínum. Hann segir að það sé ekki aðeins nauðsynlegt að skafa af öllum rúðum og speglum heldur þarf einnig að skafa snjó af ljósabúnaði bílsins.
Eftirlit lögreglunnar á þó ekki einvörðungu við almenna ökumenn heldur einnig atvinnubilstjóra, til að mynda ökumenn flutningabifreiða. Guðbrandur bendir hinsvegar á að þar sé vandinn ekki skortur á ljósum heldur fremur að flutningabílar séu með of mörg ljós.