Áfallasjóður áfall fyrir ÖBÍ

Nýtt kerfi veikinda-, slysa- og örorkuréttinda á almenna markaðnum er eitt af því sem Starfsgreinasambandið hyggst setja á oddinn í kjaraviðræðunum sem hefjast á næstu vikum. Sigursteinn Másson formaður Öryrkjabandalagsins segist varla trúa því að félög innan ASÍ haldi hugmyndinni um áfallasjóð fram í kjaraviðræðum.

„Það er vítavert gáleysi ef forkólfar atvinnulífsins fara áfram umboðslausir inn í viðræður um nýtt almannatryggingakerfi. Ég treysti því að stjórnvöld stöðvi þá," segir Sigursteinn Másson. „Þetta er ekki í þágu almennings, en hugsanlega verkalýðsforkólfa sem hafa flotið burt frá hlutverki sínu og eru í tilvistarkreppu."

Starfsgreinasambandið vill útrýma lægstu launum og sporna við vaxandi misskiptingu í þjóðfélaginu. Sjö helstu samningsmarkmið SGS í komandi kjarasamningum voru kynnt Samtökum atvinnulífsins í gær. Vilji er til þess að samið verði til tveggja ára, laun verkafólks stórhækkuð og taxtar færðir nær veruleikanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert