Drukkið fólk hefur pissað fyrir tvær milljónir

Það mætti kannski opna almenningssalerni fyrir sektirnar?
Það mætti kannski opna almenningssalerni fyrir sektirnar? mbl.is/Július

Undanfarna tvo mánuði hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kært um 200 manns fyrir brot á lögreglusamþykkt. Brotin eru margvísleg hegðunar- og umgengisbrot eins og að kasta af sér vatni á almannafæri, brjóta flöskur og glös og skemma eigur annarra. „Að meðaltali er fólk látið greiða um 10 þúsund í sekt, það fer eftir brotinu, frá 5 og upp í 20 þúsund krónur," sagði Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Lauslega reiknað má því segja að ríkissjóður hafi orðið 2 milljónum króna ríkari eftir að lögreglan fór að taka harðar á brotum af þessu tagi.

„Í okkar huga er mikilvægast að taka á þessum málum og ljúka þeim," sagði Hörður, hann bætti því við að sektarupphæðin væri ekki atriði í þessu máli, hún væri lausleg ágiskun miðað við að verið væri að taka tugi manna um hverja einustu helgi undanfarna tvo mánuði og sekta fyrir brot af þessu tagi.

„Þetta er ein leið sem við höfum til að stemma stigu við þessu ástandi enda er þetta farið að bera árangur. Fólki ber saman um það að umgengnin hefur batnað í miðborginni enda er það markmiðið og kjarni málsins," sagði Hörður.

Hann sagði jafnframt að það væri ljóst að það þyrfti að bæta salernisaðstöðu fyrir almenning í miðborginni. „Það er ljóst að hluti af vandanum liggur í því. Ef menn hefðu greiðari aðgang að almenningssalernum þá myndi allur þorri fólks nota það," sagði Hörður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert