Formaður Skotvís: Veiðimenn eru mjög löghlýðinn hópur

Skotveiðimenn eru afar óánægðir með þá gagnrýni um að töluvert hafi borið á því síðustu ár að veiðimenn hafi skotið rjúpur í Þjóðarskógum Skógræktar ríkisins á Suðurlandi, þrátt fyrir bann. Að sögn formanns Skotveiðifélags Íslands hefur félaginu borist fjöldi símhringinga og tölvupósta í dag frá reiðum veiðimönnum vegna málsins.

Sigmar B. Hauksson segir það sé fjarri lagi að skotveiðimenn séu að stofna fólki í lífshættu með því að beita skotvopnum sínum í skógum, þetta sé einfaldlega ekki stórfellt vandamál. Veiðimennirnir séu upp til hópa löghlýðnir einstaklingar.

Hann bendir hinsvegar á að félagsmenn séu sammála um að það beri að taka það mjög alvarlega ef menn eru að beita skotvopnum í skógi þar sem fólk er á ferð. Félagið fylgist vel með öllum lögbrotum sem varða skotveiðar. Hinsvegar sé ekki um stórfellt vandamál að ræða.

Hvað sem allri gagnrýni líður þá hefst rjúpnaveiðitímabilið á morgun en stöðugt hefur verið unnið að því að draga úr veiðinni enda hefur stofninn átt undir högg að sækja á undanförnum árum.

Í nóvember eru veiðidagarnir 18 talsins, þ.e. frá fimmtudegi til og sunnudags. Fyrir friðun voru veiddar um 120.000 rjúpur á ári að sögn Sigmars, en nú er fjöldinn hinsvegar á bilinu 30.000- 40.000 rjúpur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert