Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur, er ekki sammála skilgreiningu borgarlögmanns á því að ekki hafi verið að selja eigur OR og því hafi ekki þurft að bera ákvarðanir stjórnar þann 3. október undir eigendur OR.
Júlíus Vífill segist staldra við það svar borgarlögmanns við spurningum umboðsmanns Alþingis sem beint var til borgarstjórnar að engar eigur Orkuveitu Reykjavíkur hafi verið seldar. Að hans sögn er gefið út viðbótarhlutafé í REI og það hefur áhrif á það hlutafé sem fyrir er í félaginu. Því, þeir sem eru hluthafar fyrir og nýta ekki forkaupsrétt, þeirra hlutur minnkar um leið og nýtt hlutafé er gefið út. „Með þessum hætti mun Orkuveita Reykjavíkur á endanum eiga 28% í REI. Þar með er erfitt að rökstyðja það að ekkert hafi verið selt," segir Júlíus.
„Þar fyrir utan þá er það umhugsunarefni að sumu leyti hefur Orkuveita Reykjavíkur misst forræði á útrás þeirra verkefna sem félagið hefur verið í og ætlar í. Auk forræðis á nýtingu vörumerkja í eigu félagsins. Það er verið að selja og það hefur mikil áhrif bæði á Orkuveitu Reykjavíkur og framtíðarstarfsemi REI hver sem hún verður," segir Júlíus Vífill.