Landvernd hefur kært ákvörðun Skipulagsstofnunar um að nýta ekki heimildir sínar til þess að láta framkvæma heildstætt umhverfismat fyrir álver í Helguvík og tengdar framkvæmdir.
Í tilkynningu frá Landvernd kemur fram að til tengdra framkvæmda má telja nýjar jarðvarmavirkjanir, s.s. Bitruvirkjun og Krýsuvík, og flutningsleiðir fyrir raforku um all mörg sveitarfélög sem hagsmuna eiga að gæta. Það liggur nú fyrir umhverfisráðherra að fjalla um kæruna og ákveða hvort áhrif stórtækra framkvæmda skuli metin heildstætt, þannig að yfirsýn fáis, eða hvort áfram skuli skoða afmarkaðar einingar þannig að sem fæstir eigi þess kost að átta sig á umhverfisáhrifum álversins í Helguvík, í fullu samhengi.
Í 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum segir:
„Í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd eru fyrirhugaðar á sama svæði eða framkvæmdirnar eru háðar hver annarri getur Skipulagsstofnun að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega."
Ekki hefur áður reynt á þetta ákvæði laganna enda kom það inn með lagabreytingu í síðla árs 2005. En ákvörðun Skipulagsstofnunar er skv. 14. gr. laganna kæranleg til umhverfisráðherra, sem nú hefur málið til meðferðar, samkvæmt tilkynningu frá Landvernd.
„Í kæru Landverndar kemur fram að í málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi ekki verið leitað álits hjá aðilum sem klárlega eiga hagsmuna að gæta. Fjölmörg sveitarfélög þurfa að leggja til land undir línumannvirki og orkuver, til þeirra var ekki leitað. Það sama á við um Reykjanesfólkvang. Hér ber því skugga á framkvæmd stjórnsýslulaga af hálfu Skipulagsstofnunar sem ber skv. rannsóknarreglu að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin.
Það er enn langt í land með að „umhverfisáhrif álvers í Helguvík og tengdra framkvæmda séu upplýst" eins og gera verður kröfur um enda gerir skipulagsstofnun fyrirvara um "umhverfisáhrif tengdra framkvæmd" í áliti sínu:
„Skipulagsstofnun telur að fyrirhugað álver Norðuráls Helguvík sf., með fyrirvara um umhverfisáhrif tengdra framkvæmda, muni ekki valda verulega neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag," samkvæmt tilkynningu frá Landvernd.