Umhverfisstofnun telur, að meta þurfi þann kost að setja upp hreinsibúnað fyrir brennisteinsvetni á virkjanir á Hellisheiðarsvæðinu og hvaða áhrif það hefði á loftgæði á höfuðborgarsvæðinu. Þá telur stofnunin einnig nauðsynlegt, að gera frekari mælingar á brennisteinsvetni vegna virkjananna til að fylgjast með þeim styrk, sem almenningur verður fyrir.
Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar um umhverfisáhrif fyrirhugaðra Hverahlíðarvirkjun OR á Hellisheiði, að eftir að Hellisheiðarvirkjun tók til starfa hafi mælst á Grensásvegi í Reykjavík gildi, sem séu um þriðjungur af heilsuverndarviðmiðunum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO. Aukning í styrk við Grensásveg falli alveg saman við opnun virkjunarinnar. Ekki hafi verið gerðar mælingar austar í borginni.
Þegar bæði Hverahlíðarvirkjun og Bitruvirkjun á Hengilssvæðinu verði komnar í notkun verði losun brennisteinsvetnis frá öllum fjórum virkjunum á svæðinu 26.300 tonn á ári en til samanburðar er þess getið, að öll náttúruleg losun brennisteinsvetnis á landinu öllu hafi verið metin 5100 tonn á ári.
Hluti brennisteinsvetnisins geti hvarfast í hreinan brennistein og leiða megi líkur á að sá hluti geti myndað fínt brennisteinsryk.
Umhverfisstofnun segir, að þegar lagt verði mat á það hvort setja eigi hreinsibúnað á virkjanirnar verði að bera saman þá kosti sem séu í boði varðandi hreinsun eða niðurdæling, hver kostnaður sé við uppsetningu og rekstur hreinsibúnaðar og hversu mikið þyrfti að hækka raforkuverð vegna hreinsunar á brennisteinsvetni.