Segjast aldrei hafa haft samráð við keppinauta á markaði

Hagar hf., sem reka verslanir Bónus, Hagkaup og 10-11 hafna því alfarið, að Bónus og Hagkaup séu aðilar að ólöglegu verðsamráði á matvörumarkaðnum hér á landi og beiti blekkingum gagnvart viðskiptavinum sínum við gerð verðkannana.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu, sem Hagar sendu frá sér nú síðdegis vegna frétta í Útvarpinu í dag. Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    Hagar hf., sem reka verslanir Bónus, Hagkaup og 10-11, hafna alfarið þeim ásökunum, sem komu fram í hádegisfréttatíma RÚV í dag og haldið var áfram umfjöllun um í síðdegisþætti RÚV þess efnis að Bónus og Hagkaup séu aðilar að ólöglegu verðsamráði á matvörumarkaðnum hér á landi og beiti blekkingum gagnvart viðskiptavinum sínum við gerð verðkannana.

    Hér er um að ræða alvarlega aðför að orðspori fyrirtækisins og æru starfsmanna þess. Undir henni verður ekki setið þegjandi og munu Hagar hf. íhuga réttarstöðu sína vegna þessa.

    Bónus hefur frá upphafi verið leiðandi hér á landi í sölu matvæla til almennings á lágu verði. Aldrei frá stofnun félagsins og til dagsins í dag hefur átt sér stað samráð við keppinauta á markaði. Hið sama gildir um aðrar verslanir Haga hf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert