Síðustu ár hefur verið töluvert um að veiðimenn hafi skotið rjúpur í Þjóðarskógum Skógræktar ríkisins á Suðurlandi, þrátt fyrir að þar séu skilti sem sýna að skotveiðar eru þar bannaðar. Ofan í kaupið hafa þeir verið dónalegir þegar fólk biður þá um að hætta og jafnvel skrökvað því til að þeir hafi fengið leyfi fyrir veiðunum hjá skógarverði.
Skógarnir á Suðurlandi eru vinsælir til gönguferða og undanfarin ár hefur verið unnið að því að bæta við og laga göngustíga.
Að sögn Hreins Óskarssonar, skógarvarðar Skógræktarinnar á Suðurlandi, hafa verið töluverð brögð að þessum óleyfilegu skotveiðum í Haukadalsskógi. "Það hefur gerst oftar en einu sinni að fólk í göngutúr hefur fengið haglaskot beint yfir hausinn á sér. Þetta getur verið stórhættulegt og það er eins og menn hugsi ekki alltof mikið áður en þeir hleypa af," sagði Hreinn.