Umhverfisáhrif Hverahlíðarvirkjunar ekki umtalsverð

Umhverfisstofnun telur ekki, að fyrirhuguð virkjun Orkuveitu Reykjavíkur við Hverahlíð á Hengissvæðinu muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Segir stofnunin, að virkjanasvæðið liggi í suðurjaðri mannvirkjabeltis á Hellisheiði og þar sé m.a. þjóðvegur 1, sem til standi til að stækka, gamlir vegir og háspennulínur.

Stofnunin telur, að fylgjast skuli með styrk og dreifingu brennisteinsvetnis frá virkjuninni og grípa til mótvægisaðgerða, svo sem hreinsunar á gufunni ef með þurfi. Jafnframt þurfi að vakta áhrif virkjana á viðkvæman gróður.

Þá segir stofnunin, að sjónræn áhrif virkjunarinnar verði nokkur, en hönnun mannvirkja og staðsetning ráði miklu um hver þau áhrif verði. Þá hafi OR reynt að forðast að raska hrauni eins og kostur er með því að minnka fyrirhugað framkvæmdasvæði og með því að hlífa jarðmyndunum, sem hafi verndargildi.

OR hyggst reisa tvær jarðgufuvirkjanir á Hengilssvæðinu, á Bitru og í Hverahlíð. Andstæðingar virkjananna hafa sett á laggirnar heimasíðu þar sem almenningur er hvattur til að gera athugasemdir við virkjunaráætlanirnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert