Ný met voru slegin í sumar í fjölda ferðamanna hingað til lands. Í fyrsta skipti fór fjöldi erlendra ferðamanna yfir 80 þúsund í einum mánuði en það gerðist bæði í júlí og ágúst síðastliðnum. Fyrstu 9 mánuði ársins voru erlendir ferðamenn sem fóru um Leifsstöð 379 þúsund talsins og fjölgaði um 16,5% miðað við sama tímabil í fyrra. Ársæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu segir á vef Ferðamálastofu, að aldrei fyrr hafi verið jafnmikið framboð af flugsætum og hótelherbergjum fyrir hendi.
„Við áttum von á þessum fjölda í sumar og það hefur verið góður gangur víðast hvar. Nú er svo að sjá hvernig gengur í vetur að viðhalda vexti síðustu missera. Það má hvergi slaka á í markaðs- og sölumálum á mörkuðum,” segir Ársæll.
Sem fyrr segir voru júlí og ágúst sannkallaðir metmánuðir með yfir 80 þúsund ferðamenn í hvorum mánuði. Fram að því var mesti fjöldi í einum mánuði tæplega 70 þúsund ferðmenn, í ágúst 2006. Í september fóru 39 þúsund ferðamenn um Leifsstöð sem er 1% fækkun miðað við fyrra ár.