Með auknum fjölda útlendinga sem starfa tímabundið hér á landi hefur venju fremur borið á vandkvæðum við innheimtu eftir á lagðra opinberra gjalda og eins við fullnustu refsinga vegna opinberra dómsmála. Slík tilvik geta komið upp þegar erlendir starfsmenn eru skráðir til lögheimilis hér á landi en farnir til síns heima – án þess að vera afskráðir úr kerfinu.
Í Lögbirtingablaðinu nýverið var birt fyrirkall vegna máls sem höfðað var á hendur karlmanni af erlendu bergi brotnum vegna ölvunaraksturs. Í ákæru kemur fram íslenskt heimilisfang en í fyrirkallinu segir að heimilisfang sé óþekkt. Ólíklegt er því að maðurinn, sem að öllum líkindum hefur yfirgefið landið, þurfi að greiða skuld sína við samfélagið – verði hann sakfelldur.
Málið sem um ræðir er rekið fyrir Héraðsdómi Vesturlands og aðspurður segir Ólafur Þ. Hauksson sýslumaður á Akranesi að um einhverja fjölgun sé að ræða á slíkum málum þó að hann geti ekki sagt með nákvæmni til um hversu mikil hún sé. "Það má segja að þessum málum hafi verið að fjölga því þetta vinnuafl er nokkuð mikið á ferðinni. En það hefur alltaf verið sama vandamál uppi hvað varðar ferðamenn, þannig að þetta er ekki nýtt af nálinni.