Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir að sú samþykkt borgarráðs í morgun að ógilda eigendafund OR þar sem ákveðin var sameining REI og GGE hafi alls ekki verið skipbrot sinnar stefnu. Í ljós hafi verið komnir formgallar á boðun fundarins, og „við verðum að hafa hugrekki og þor til að horfast í augu við það.“
Björn Ingi benti á að hann hafi sjálfur lagt til að haldinn yrði nýr eigendafundur, því að mikilvægt væri að eyða þeirri tortryggni sem komið hefði í ljós. Svo mikill vafi hafi verið á að „gjörningurinn hafi verið lögmætur“ vegna þess að formsatriði var ekki fullnægt að orðið hafi að byrja upp á nýtt.
Björn Ingi ítrekaði að hann hefði fulla trú á OR, en of snemmt væri að segja til um hvort samruni REI og GGE yrði óbreyttur, en hann teldi að þeir aðilar sem væru í útrás ættu að „vinna sem mest saman.“