Endurnýjuð útrás

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson.

Dagir B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði að meginverkefni borgarstjórnar væri að endurreisa traust á borgarstjórn og á Orkuveitu Reykjavíkur. Sú ákvörðun að hafna samruna REI og GGE hefði verið besta leiðin til þess. Þetta væri auk þess nauðsynlegt skref til að OR gæti haldið útrás sinni áfram en á nýjum forsendum.

Dagur sagði aðspurður að engin átök hefðu verið í stýrihópnum og mikil sátt og samstaða ríkt um málið innan meirihlutans. „En ég ætla ekki að gera lítið úr því að auðvitað eru atburðir undanfarinna vikna það dramatískir að þetta er unnið við mjög erfiðar kringumstæður. Og ég tek hattinn ofan fyrir Svandísi Svavarsdóttur að leiða starf þessa breiða hóps, með aðkomu allra, til sameiginlegrar niðurstöðu. Ég held að það komi í raun mörgum á óvart hvað þetta hefur gengið vel.“

Dagur sagði að eftir að farið hefði verið yfir málið hefði verið talið best að fella samruna REI og GGE. Í fyrsta lagi hefði leikið svo mikill vafi á lögmæti eigendafundarins 3. október að það hefði verið óhjákvæmilegt að taka af skarið og í öðru lagi yrði að vinda ofan af samrunanum til þess að hægt væri að halda áfram útrás OR en á nýjum forsendum.

Dagur vildi ekki gefa neinar yfirlýsingar um hvernig OR gæti staðið að útrás framvegis. „Við ætlum að taka okkur tíma til að finna okkur þau samstarfsform sem henta best til að ná árangri í þessari útrás,“ sagði hann. Samstarf við einkaaðila kæmi vissulega til greina en hann útilokaði að það yrði gert á sömu forsendum og lágu fyrir í samruna REI og GGE.

Spurður um hugsanlega skaðabótaskyldu borgarinnar sagði hann að farið hefði verið yfir málið frá öllum mögulegum lögfræðilegum hliðum. Spurður hvort fyrir lægi lögfræðilegt álit þess efnis að borgin væri ekki skaðabótaskyld, sagði Dagur að þessi skref væru tekin að mjög yfirveguðu ráði. Hann tók fram að ákvörðun borgarráðs beindist ekki gegn einum né neinum, hvorki stjórnendendum OR eða þeim fjárfestum sem tóku þátt í samruna REI og OR.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert