Skrifað var í dag undir smíðasamning milli Ísfélags Vestmannaeyja og skipasmíðastöðvarinnar ASMAR sem er í Chile. Ísfélagið fær skipasmíðastöðina til að smíða nýtt uppsjávarveiðiskip fyrir fyrirtækið en burðargeta hins nýja skips verður um 2000 tonn. Skipið verður 71 metra langt og tæplega 15 metra breitt og útbúið til nóta- og flottrollsveiða.
ASMAR skipasmíðastöðin smíðaði m.a. Huginn VE. Þá er sama skipasmíðastöð að smíða hið nýja varðskip Landhelgisgæslunnar.
Áætlað er að hið nýja skip verði afhent um mitt árið 2010. Skipið er hannað og teiknað af Rolls Royce í Noregi en smíði skipsins fer fram í Chile. Skipið verður eingöngu búið til veiða, ekki vinnslu og mun því allur afli skipsins verða unninn í landi.
„Með smíði þessa skips stígur Ísfélag Vestmannaeyja hf. stórt og metnaðarfullt skref í endurnýjun á uppsjávarflota félagsins og dótturfélags þess, Hraðfrystistöðvar Þórshafnar hf. Með endurnýjun á skipaflotanum er verið að fylgja eftir þeirri stefnu félagsins að gera út færri en öflugri uppsjávarskip sem eru vel útbúin til að koma með gott hráefni til frystingar og/eða í bræðslur félaganna,“ segir m.a. í fréttatilkynningu Ísfélagsins af þessu tilefni.
Auk smíðasamningsins sem var undirritaður í dag mun Ísfélagið jafnframt eiga smiðarétt á öðru samskonar skipi hjá ASMAR.