Stýrihópurinn borgarráðs um samruna Reykjavik Energy Invest (REI) og Geysis Green Energy (GGE) hefur komist að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð og ákvarðanataka í samningaferli um sameiningu REI og GGE kunni að orka verulega tvímælis og sé ekki hafin yfir vafa. Málsmeðferðin sé því verulegt áfall fyrir stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.
Þetta kemur fram í tillögu stýrihópsins um að hafna samrunanum en borgarráð samþykkti tillöguna í dag.
Í tillögu stýrihópsins segir, að engar haldbærar skýringar eða rök hafi komið fram sem réttlæti þann hraða sem var viðhafður í málinu og leiddi til þess að reglur um boðun eigendafunda voru brotnar og að stjórnarmenn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og fulltrúar eigenda fengu takmörkuð tækifæri til að skoða og yfirfara gögn í málinu og byggja sína ákvörðun þannig á fullnægjandi forsendum. Slíkt hljóti að teljast afar alvarlegt þegar um sé að ræða svo yfirgripsmikla ákvörðun sem hér er til umfjöllunar.
„Að mati stýrihópsins hefur ferlið við upplýsingagjöf og kynningu á þjónustusamningi OR og REI og sameiningu REI og GGE brugðist. Kjörnir stjórnarmenn í fyrirtækjum borgarinnar eiga að viðhafa opið og gegnsætt ferli við ákvarðanatöku og þeim er ekki ætlað að taka umfangsmiklar ákvarðanir án þess að fyrir því hafi legið samþykktir eða rökstuðningur. Við skoðun á aðdraganda málsins og málsmeðferð hefur stýrihópurinn komist að því að reglur kunni að hafa verið brotnar að því er varðar umboð, upplýsingamiðlun, meðferð gagna og nálgun. Slíkt varðar athafnir og ákvarðanir stjórnarmanna fyrirtækjanna, æðstu stjórnenda og fulltrúa eigenda. Þetta hefur leitt til þess að trúnaðarbrestur hefur orðið í ferlinu öllu, sem er nauðsynlegt að horfast í augu við og draga lærdóma af.
Ljóst er að við skoðun á þjónustusamningi eða einkaréttarsamningi, sem er ein helsta forsenda samrunans, koma í ljós efnislegir þættir sem ekki verður við unað með hagsmuni Orkuveitu Reykjavíkur að leiðarljósi. Er þar helst að nefna þætti sem varða tímalengd samningsins og skuldbindingar til svo langs tíma, notkun á vörumerki fyrirtækisins án takmarkana og óháð eignarhluta Orkuveitunnar í því fyrirtæki sem um ræðir.
Stýrihópurinn telur þegar nægilegar forsendur liggja fyrir til að fallast ekki á samrunann en jafnframt að frekari skoðun þurfi að fara fram átilteknum þáttum sem að hluta verði beint í sérstaka stjórnsýsluúttekt," segir í tillögunni.