Margrét Sverrisdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík, segir það sögulegt að þverpólitísk sátt hafi náðst um að hafna samruna REI og Orkuveitu Reykjavíkur. Þá segir Margrét að að það skipti máli að hægt sé að hefja útrás á nýjum forsendum.
Margrét segir að það hafi verið skýrt að ekki væri hægt að fallast á það að gildur samningur hefði verið gerður um samrunann og að niðurstaðan hafi verið sú að næg lögfræðileg rök væru fyrir því að samningurinn héldi ekki. Þá séu það hagsmunir allra, ekki síst þeirra fyrirtækja sem að málinu koma að fá frið um málið.
Einnig segir Margrét að niðurstaðan skipti máli svo hægt sé að hefja útrás á nýjum forsendum. „Það er hins vegar nokkuð sem stýrihópurinn tekur á í framhaldinu, og ekki víst að jafn þverpólitísk sátt verði um hvernig farið verður að því".
Að sögn Margrétar er stefnt að því að næsta áfangaskýrsla, þar sem línurnar varðandi framhaldið verði lagðar, komi út eftir um það bil mánuð. Margrét segir Svandísi Svavarsdóttur, formann stýrihópsins hafa haldið vel og þétt um málið og að þegar niðurstöður stjórnsýsluúttektarinnar á OR, sem boðuð var í dag, berist verði hægt að taka réttar ákvarðanir.
Margrét segir að niðurstöður stýrihópsins séu áfellisdómur yfir stjórnsýslunni. Hún segir að rætt hafi verið við fjölda manna og að hennar mati hafi verið að ræða þróun sem menn hafi ekki varað sig á, þ.e. þegar hið opinbera fór að takast á við fjármálaheiminn.
„Ég get ekki séð að þetta sé neinum einum að kenna. Stjórnsýslan réð ekki við þessi nýju verkefni, hafði ekki verkferla og umboð manna var í mörgum tilfellum óljóst."
Þá segir Margrét að læra verði af þessu í öðrum verkefnum og að tilhugsunin um það að svona geti hugsanlega verið víðar veki ugg.
„Þess heldur þurfum við að fá úttekt [...], því þá getum við gert vel og unnið opið og eðlilega".