Tatjana Latinovic fékk húmanistaviðurkenningu Siðmenntar

Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi, hefur ákveðið að veita Tatjönu Latinovic húmanistaviðurkenningu ársins 2007 fyrir óeigingjarnt starf í þágu mannréttinda á Íslandi.

Siðmennt segir, að í áratug hafi Tatjana unnið að mestu í sjálfboðastarfi við málefni sem snerta mannréttindi, kvenréttindi og innflytjendamál og tekið virkan þátt í uppbyggingu fjölmenningarlegs samfélags á Íslandi.

Tatjana sem er frá fyrrverandi Júgóslavíu hefur verið búsett á Íslandi í 13 ár. Hún er formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, er í stjórn Alþjóðahússins og Kvennaathvarfsins auk þess að eiga sæti í innflytjendaráði í félagsmálaráðuneytinu. Hún er með BA próf í ensku og þýsku frá háskólanum í Osijek í Króatíu en á Íslandi lauk hún BA prófi í íslensku fyrir erlenda stúdenta við Háskóla Íslands árið 1998. Áður en hún kom til Íslands vann hún fyrir alþjóða Rauða krossinn á stríðssvæðunum í Bosníu og hefur einnig unnið að málefnum flóttamanna hjá íslenska Rauða krossinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka