Þingmenn lýstu í dag miklum áhyggjum af þeim fréttum sem bárust í gær um að fyrrverandi starfsmenn verslana á matvörumarkaði segðu að stóru lágvöruverslanirnar ættu með sér einhverskonar verðsamráð og verði í verslununum væri hagrætt eftir því hvort von væri á verðkönnunum. Viðskiptanefnd þingsins mun heimsækja Samkeppniseftirlitið í fyrramálið og þetta mál mun án efa bera á góma á þeim fundi.
Atli Gíslason, þingmaður VG, hóf máls á þessu í upphafi þingfundar. Sagði hann að eftirlitsstofnanir væru í fjársvelti og talsmaður neytenda líka, auk þess sem hann virðist nánast vera einn á skútu. Þá væru engin teikn um breytingar.
Fram kom hjá fleiri þingmönnum, að styrkja þyrfti eftirlit með samkeppni á markaði. Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að viðskiptalífið byggðist á trausti, sanngirni og heiðarleika og fréttir gærdagsins hreyfðu við þessu trausti og væru í raun skelfilegar ef réttar væru.
Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði fulla ástæðu til að Samkeppniseftirlitið fjallaði um þessi mál og spurning væri hvort þingið ætti að gera það einnig með einhverjum hætti.
Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingar, sagði að ef einstaklingar byggju yfir upplýsingum um samkeppnisbrot ættu þeir að koma þeim á framværi við Samkeppniseftirlitið. Því mikla frelsi, sem orðið væri á markaði hér, fylgdi einnig ábyrgð, og ríkið bæri ábyrgð á að hafa eftirlit með því.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sagði að þessar fréttir væru rannsóknarefni enda hefði viðskiptaráðherra sagt í fréttum að þær yrðu rannsakaðar til hlítar. Þá þyrfti að komast til botns í því, hvers vegna verðlagseftirliti Alþýðusambandsins hefði verið úthýst.
Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins sagði að viðskiptaráðherra skipaði ekki Samkeppniseftirlitinu fyrir.