Borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem harmað er að Reykjavík sé með gerð að vettvangi fundarhalda stjórnenda vopnaframleiðenda.
Fundur æðstu yfirmanna vopnaframleiðslufyrirtækisins BAE Systems hefur verið haldinn hér á landi síðstu daga. VG segir, að BAE Systems sé stærsti vopnaframleiðandi Evrópu og einn sá stærsti í heimi. Fyrirtækið sé þekkt fyrir að selja vopn til ríkja þar sem takmörkuð virðing er borin fyrir lýðræði og mannréttindum og má þar einna helst nefna Sádi-Arabíu og Indónesíu. Fyrirtækið hafi sömuleiðis setið undir ásökunum um stórfelldar mútugreiðslur til stjórnmálamanna og einræðisherra víða um lönd í tengslum við vopnasölusamninga.
„Borgaryfirvöld hafa á síðustu misserum viljað kynna Reykjavík sem miðstöð friðar og má í því sambandi nefna Friðarsúlu Yoko Ono sem sett var upp í Viðey á dögunum. Fundir og kaupstefnur vopnaframleiðenda geta ekki samrýmst því markmiði og sömu sögu má raunar segja um ráðstefnur á borð við þá sem hernaðarbandalagið NATO hélt hér nýverið.
Borgarstjórnarflokkur VG minnir sömuleiðis á andstöðu Vinstri grænna við heræfingar í borgarlandinu og „kurteisisheimsóknir“ herskipa í hafnir Reykjavíkur," segir í yfirlýsingunni.