Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir að þrátt fyrir að stjórn OR hafi samþykkt einróma að verða við tilmælum borgarráðs um að falla frá samruna REI og Geysis Green Energy þá hefur engin ákvörðun verið tekin um að hætta við útrás OR. Nú verði hafist handa að ræða við aðra aðila um samstarf á sviði útrásar.
Að sögn Bryndísar þá er hún ánægð með þá samstöðu sem ríkir innan stjórnar OR og að það sé mikilvægt að stjórnin sé samstíga í jafn flóknu máli og þessu.
Segir Bryndís að samþykkt hafi verið á stjórnarfundinum að draga til baka allar þær umdeildu ákvarðanir sem teknar voru á stjórnarfundinum þann 3. október að því undanskildu að tryggja hagsmuni Orkuveitu Reykjavíkur í REI með því að kaupa nýtt hlutafé í REI.