Forsendur borgarráðs fyrir því að hafna samruna Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy eru fyrst og fremst tvær, að mati Svandísar Svavarsdóttur, formanns stýrihóps um samruna REI og GGE. Meðal annars að allar reglur hafi verið þverbrotnar, umboð farið fyrir ofan garð og neðan auk þess sem kynningu og opinberri umræðu hefði verið ábótavant.
Þrjár tillögur stýrihópsins voru lagðar fyrir og samþykktar á fundi borgarráðs í gær. Í fyrsta lagi fellst borgarráð ekki á samruna REI og GGE og telur jafnframt að þjónustusamningur Orkuveitu Reykjavíkur og REI sé óviðunandi. Í öðru lagi telur borgarráð að eigendafundur OR 3. október sl. og þær ákvarðanir sem þar voru teknar séu háð miklum annmörkum og mikill vafi leiki á um lögmæti fundarins. Í þriðja lagi samþykkir borgarráð að beina því til fulltrúa borgarinnar í stjórn OR að ljúka málinu í samræmi við þessa niðurstöðu borgarráðs. Fulltrúar allra flokka fögnuðu niðurstöðunni að loknum borgarráðsfundi og sagði Björn Ingi Hrafnsson m.a. að upplýsingar hefðu komið fram um að ekki hefði verið rétt staðið að samrunanum og því nauðsynlegt að byrja með hreint borð.
Ítrekað var reynt að ná í Bjarna Ármannsson, stjórnarformann REI, vegna málsins en án árangurs. Í fréttum Stöðvar 2 sagði Bjarni hins vegar að ákvörðunin ylli sér þungum vonbrigðum og sér sýndist að verið væri að kasta verulegum fjármunum á glæ.