Bætt aðstaða fyrir skemmtiferðaskip skapar aukin tækifæri

mbl.is/ÞÖK

Með bættri aðstöðu fyrir skemmtiferðaskip og farþega þeirra má annars vegar stuðla að fleiri skipakomum og hins vegar nýta betur þau tækifæri sem þessi starfsemi hefur hér á landi. Þetta er megin niðurstaðan í skýrslu nefndar um móttöku skemmtiferðaskipa sem formaður hennar, Gísli Gíslason, afhenti Kristjáni L. Möller samgönguráðherra, í gær.

Formaður nefndarinnar sagði að aukning í komum skemmtiferðaskipa til Íslands væri mest í Reykjavík og Akureyri en fleiri hafnir nytu hennar einnig. Nefndi hann sem dæmi að með bættri aðstöðu hjá Faxaflóahöfnum mætti gera ráð fyrir að skipakomum fjölgaði úr 60 á ári uppí kringum 100 eftir fimm til sjö ár, að því er segir á vef samgönguráðuneytisins.

Kristján L. Möller samgönguráðherra lýsti ánægju sinni með tillögurnar og sagði ljóst að þar væri margt sem brýnt væri að vinna úr. Það yrði að hluta til verkefni nýs ráðherra ferðamála þar sem ferðamál flytjast til iðnaðarráðuneytisins um áramót. Áfram yrði þó hlutverk samgönguráðuneytis að stuðla að bættri aðstöðu í höfnum til að hlúa að þessum vaxtarbroddi.

Í skýrslunni er að finna margháttaðar upplýsingar um þróun í móttöku skemmtiferðaskipa hérlendis, um vöxt og viðgang greinarinnar, eðli starfseminnar og markaðssetningu, leiðir skipanna tegundir skipa, fjöldi þeirra og eignarhald. Fjallað er um aðstöðu hérlendis, reglur um öryggi farþega og í viðaukum eru ýmsar tölulegar upplýsingar.

Þá eru í skýrslunni fjölmargar tillögur sem hafa það markmið að virkja fleiri aðila til að veita skemmtiferðaskipum og farþegum þeirra þjónustu og taka þátt í markaðsstarfi. ,,Vexti og viðgangi á þessu sviði er fyrst og fremst að þakka tiltölulega fáum aðilum sem hafa haft sérstakan áhuga á verkefninu,? segir meðal annars í formála skýrslunnar. ,,Með auknum vexti í kjölfar aukinnar markaðssetningar og bættri nýtingu á þeim tækifærum sem eiga að gefast í framtíðini þá beri að stuðla að bættum innviðum og aðstöðu,? segir einnig í skýrslunni sem er að finna á vef samgönguráðuneytisins.

Skýrsla nefndar um móttöku skemmtiferðaskipa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert