Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur ákveðið að tímabundið landamæraeftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins fari fram í Flugstöð Leifs Eiríkssonar næstu daga. Eftirlitið hófst síðdegis í gær og stendur til miðnættis á sunnudag. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var í netútgáfu Lögbirtingablaðsins í gær.
Í yfirlýsingu sem dómsmálaráðherra sendi til aðalskrifstofu ráðherraráðs Evrópusambandsins í gær kemur fram að gripið sé til tímabundins landamæraeftirlits af sérstöku tilefni á næstu dögum sem ógni allsherjarreglu og þjóðaröryggi. Nánari upplýsingum um hið sérstaka tilefni verði komið á framfæri við samstarfsríki innan Schengen um SIRENE-samskiptakerfið.