Ekki var talið að hætta stafaði af hræinu

Jarðvegur tekinn kringum staðinn þar sem hræið fannst.
Jarðvegur tekinn kringum staðinn þar sem hræið fannst. mbl.is/Júlíus

Viðbrögð heilbrigðisyfirvalda, slökkviliðs og lögreglu við tilkynningu um að grafa hefði komið niður á kýrhræ, sem grunur leikur á að sé smitað af miltisbrandi, á byggingarsvæði í Garðabæ í gær voru í samræmi við það sem skilgreint hafði verið í samráði við yfirdýralækni og kom fram í útboðsgögnum fyrir svæðið, að sögn upplýsingastjóra Garðabæjar.

Að sögn Guðfinnu Kristjánsdóttur, upplýsingastjóra Garðabæjar, barst ábending, þegar deiliskipulag var gert fyrir umrætt byggingarsvæði, að kýr, sem drapst úr miltisbrandi í upphafi fimmta áratugar síðustu aldar, kynni að hafa verið urðuð á því, þótt ekki lægi fyrir nákvæmlega hvar.

Höfðu bæjaryfirvöld þá samband við sóttvarnalækni og í bréfi frá honum sagði að ekki ætti að stafa nein hætta af hræinu ef gerðar yrðu viðeigandi ráðstafanir og skilgreind viðbrögð ef til þess kæmi að grafið yrði niður á hræið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert